Vasaprump

„Ég fékk vasaprump“ sagði sonurinn í lauginni á Celtic Lodge um helgina. Ekki hafði ég heyrt þetta áður, svo ég ákvað að deila því. Vasaprump er sem sagt þegar maður fer ofan í vatn í sundbuxum og loft fer út úr vasa og skálmum með loftbólum og tilheyrandi, eins og maður sé að prumpa.

Við fjölskyldan vorum í helgarferð sem byrjaði með sérstöku VIP-boði á útgáfutónleika Grammy-verðlaunahafans Gordie Sampson. Þetta var þvílíkt kvöld, sérstakt VIP-svæði, Fred Lavery upptökustjóri að kynna okkur fyrir öllum, fríir drykkir og svo tók Gordie sjálfur í spaðann á mér í umræðum í lokin, sagðist hafa fengið að hlusta á tónlistina mína, væri gífurlega hrifinn og gæti ekki beðið eftir að heyra diskinn!

„So far, so good“, segi ég nú bara.

Sumarið hérna hefur annars verið með eindæmum blautt, alveg ótrúlegt segir fólk. Vonandi verður haustið því lengra, betra og ljúfara.


Vínland segir: „Húrra!“

Þar sem ég er runninn út á tíma að setja inn athugasemd kem ég hér askvaðandi með eigin færslu!

Mig langar að þakka kærlega fyrir þetta frábæra bloggframtak og skeiðvöll fyrir uppátæki og annað hjá okkar ætt. Takk fyrir frábæra samverustund á ættarmótinu; endurtökum þetta hið fyrsta.

 Við erum allavega komin heim í húsið við ána og farin að stússast í ýmsum málum. Nú hefst hinn kanadíski leggur (www.lakewind.com) á upptökum á fyrstu einmenningsplötu minni, Þór Brei, sem ber heitið "Running Naked". En krakkar, ÞETTA ER LÍKING! Ekki búast við myndum af mér að hlaupa strípó í skóginum. Enda yrði maður bitinn á óviðurkvæmilegum stöðum á fimm mínútum ef tekið væri á röngum árstíma.

... fyrir utan að geta verið bitinn heldur fastar á óviðurkvæmilegum stöðum ef maður hleypur óvart fram á björn að gæða sér á berjum. "Never scare a bear."

 Ég sé annars að bloggsíðan okkar er meðal tengla hérna svo þetta er allt tengt og yndislegt á alnetinu.

 Kveðjur frá Kanada,

 Þór, Hugrún og Kristinn


Bilað!

Sæl verið þið

Það er víst tímabundin bilun í gangi.  Af þeim sökum er t.d. ekki hægt að sjá nýjustu myndirnar sem settar voru inn í gær.  Þetta ástand varir vonandi ekki lengi.

 kær kveðja

Kristbjörg Hermanns.


Hóls-fjölskyldan hefur innrás sína í bloggheiminn

Jæja kæra fjölskylda, nú er loksins komið að því, Hóls-gengið hefur hafið innrás sína í bloggheiminn! Hér mun hvaða fjölskyldumeðlimur sem er geta sett inn myndir, myndbönd, blogg og upplýsingar um sig og sína, ásamt því að geta séð efni frá öðrum og um aðra. Vonandi nýta sem flestir sér þetta tækifæri til þess að skiptast á upplýsingum, skoða skemmtilegar myndir og nota tæknina til alls þess sem hugurinn girnist.

Nú þegar er Ólöf Hermanns. búin að setja inn myndir og nokkur myndbönd, þar á meðal frá síðustu helgi (18.-20. júlí). Hún er einnig stofnandi síðunnar og þökkum við henni kærlega fyrir framtakið.

 Að lokum vil ég bara hrópa þrefalt húrra fyrir okkur öllum og til hamingju með nýju síðuna! :o)

 Ásta Hermanns.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband